Þjónusta við fyrirtæki
Við hjá Bráðaskólanum höfum yfir áratugalanga reynslu af því að skipuleggja námskeið í skyndihjálp og endurlífgun fyrir fyrirtæki, bæði innan og utan heilbrigðisgeirans. Sérstaða okkar er sú að allir kennarar okkar eru heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur við bráðar aðstæður daglega og þú getur því treyst því að við vitum nákvæmlega um hvað við erum að tala. Að auki leggjum við áherslu á að kenna í raunverulegu umhverfi fyrirtækisins - við komum því til þín með allan búnað og starfsfólk þitt þarf því ekki að ferðast langar leiðir eða sækja þjálfun utan vinnutíma.
Hér að neðan er stutt yfirlit yfir þá þjónustu sem við bjóðum upp á en við erum líka alltaf til í að búa til eitthvað nýtt og spennandi, sérsniðið að þörfum þíns fyrirtækis. Sendu okkur endilega línu á bradaskolinn@bradaskolinn.is með upplýsingum um áætlaðan þátttakendafjölda til að fá tilboð eða með því að fylla út formið hér og við höfum samband um hæl.
Fyrirtæki utan heilbrigðisgeira
- Stöðluð skyndihjálparnámskeið. Við komum á staðinn til þín. Hægt er að velja um 4 til 12 klst. löng skyndihjálparnámskeið sem kennd eru eftir stöðlum Rauða kross Íslands. Farið er yfir öll helstu atriði skyndihjálpar og allir þátttakendur fá gild skyndihjálparréttindi sem skráð eru í gagnagrunn Rauða krossins og gilda í 2 ár.
- Sérsniðin skyndihjálparnámskeið. Mörg fyrirtæki kjósa frekar sérsniðin námskeið þar sem hægt er að haga námskránni eftir þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig. Sem dæmi um það hvernig aðlaga má sérsniðin námskeið, má nefna að hægt er að fara dýpra í ákveðin atriði en rými gefst til á stöðluðu námskeiðunum, t.d. kjósa fyrirtæki í iðnaði oft að veita starfsfólki sínu dýpri þekkingu á sviði áverka og sáraumhirðu en veitingastaðir vilja frekar fara dýpra í viðbrögð við bráðaofnæmi. Einnig kemur reglulega upp að alvarlegt atvik á borð við hjartastopp eða áverka hafi þegar orðið hjá fyrirtæki og er þá óskað eftir æfingu og fræðslu um það sem gerðist. Þetta getur hjálpað starfsfólki að vinna úr erfiðri reynslu tengdri atvikinu, auk þess sem starfsfólk verður betur undirbúið til að mæta slíku atviki í framtíðinni. Að síðustu má nefna að hægt er að sérsníða námskeið eftir húsnæði fyrirtækisins - starfsfólk Bráðaskólans gerir þá úttekt á húsnæði fyrirtækisins fyrir námskeiðið og kortleggur hvar þurfti að æfa viðbrögð sérstaklega, t.d. ef um lyftur eða önnur þröng svæði er að ræða. Að loknum sérsniðnum skyndihjálparnámskeiðum fá þátttakendur og fyrirtækið í heild skírteini frá Bráðaskólanum.
Sendu okkur línu hér með áætluðum þátttakendafjölda til að fá tilboð í námskeið fyrir þitt fyrirtæki.
Fyrirtæki í heilbrigðisgeira
- Sérsniðin námskeið í bráðum aðstæðum. Námskeiðið er sniðið að þeirri starfsemi sem fram fer hjá hverju fyrirtæki fyrir sig en byrjað er á fyrirlestri og svo er farið í tilfellaþjálfun, þar sem tilfellin snúast um bráðar aðstæður sem upp geta komið hjá viðkomandi fyrirtæki. Við leitumst við að æfa í raunverulegum aðstæðum fyrirtækisins og komum því á staðinn til ykkar með allan búnað. Við viljum gjarnan hafa alla starfsmenn fyrirtækisins með á námskeiðinu, jafnt faglærða sem ófaglærða og fá allir námsefni og æfingu við sitt hæfi. Að námskeiðinu loknu fá þátttakendur og fyrirtækið í heild skírteini frá Bráðaskólanum.
- Herminám. Fyrir fagfólk í heilbrigðisþjónustu er herminám einn af hornsteinum góðrar þjálfunar. Í hermináminu notum við sérhæfðar dúkkur sem líkja eftir sjúklingi í bráðum aðstæðum og er þá t.d. hægt að mæla lífsmörk og hlusta á öndun, stilla loftveg eftir því sem við á og svo framvegis. Við mælum með að herminámið sé tekið sem hluti af sérsniðnu námskeiði í bráðum aðstæðum og er herminámi því samtvinnað við það námskeið. Að loknu námskeiðinu frá þátttakendur skírteini frá Bráðaskólanum.
Sendu okkur línu hér með áætluðum þátttakendafjölda til að fá tilboð í námskeið fyrir þitt fyrirtæki.
Námskeið fyrir heilsugæslur
- Heilsugæslur í þéttbýli. Bráðaskólinn býður nú upp á sérhæft heilsugæslunámskeið fyrir starfsfólk heilsugæsla í þéttbýli. Námskeiðið er 3 klst. langt og inniheldur fyrirlestur auk verklegra stöðva með tilfellaþjálfun þar sem teymisvinna í bráðum aðstæðum er æfð sérstaklega auk þess sem farið er vel yfir notkun akútbúnaðar og -lyfja á hverjum stað fyrir sig. Námskeiðið hentar bæði heilbrigðismenntuðum starfsmönnum heilsugæslunnar sem og ófaglærðum, enda skiptir hver sekúnda máli í bráðum aðstæðum og allir starfsmenn heilsugæslunnar hafa mikilvægu hlutverki að gegna til að tryggja að útkoma skjólstæðingsins verði sem best.
- Fyrir heilsugæslur og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni mælum við með lengra og ítarlegra námskeiði, þar sem yfirleitt er þá lengra í sérhæfða aðstoð og mikilvægt að starfsfólk búi yfir breiðari kunnáttu í bráðum aðstæðum til að geta brúað bilið þar til hægt er að koma skjólstæðingi á sjúkrahús. Hafðu samband og við finnum út með þér hvað hentar þinni heilsugæslu best.
Sendu okkur línu hér með áætluðum þátttakendafjölda til að fá tilboð í námskeið fyrir þína heilsugæslu.